VALMYND ×

Fréttir

Opin vinnustofa

Solveig E. Söebech, myndmenntakennari, býður nemendum upp á opna vinnustofu þessar vikurnar. Vinnustofan er opin á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 12:50-15:45 og hafa nemendur verið duglegir að nýta sér það. Í síðustu viku gripu nokkrir nemendur úr 8.bekk tækifærið, fundu kork og pappa og hönnuðu gírkassa í Subaru, ásamt leikmyndamunum úr blöðum og gipsi. Í dag mættu upprennandi grafík listakonur í vinnustofuna í tilraunavinnu með prent af gelplötum. Sköpunargleðin var allsráðandi eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skapandi skólastarf

Lykilhæfni nemenda byggir meðal annars á sköpun, sjálfstæði og samvinnu, sem sífellt er verið að þjálfa í öllu námi. Undanfarið hafa nemendur á miðstigi verið í fjölbreyttri vinnu sem eflir þessa þætti. Í borðspilum, sem er valgrein á miðstigi, hönnuðu nemendur t.d. sín eigin borðspil frá grunni, með eigin reglum og útfærslum. Í textílmennt í 5.bekk hönnuðu nemendur svo sínar eigin sessur á stóla. Afraksturinn má sjá á meðfylgjandi myndum.

Heppnir lestrarhestar

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember s.l. efndi skólasafnið til bókagetraunar fyrir alla bekki. Getraunin fólst í því að para saman bókarkápur og upphafssetningar viðkomandi bókar og voru útdráttarverðlaun fyrir heppna þátttakendur. Hinir heppnu reyndust svo vera þau Árný Fjóla Hlöðversdóttir og Oskar Godlewski og óskum við þeim innilega til hamingju.

Í lok nóvember startaði skólasafnið svo jólaklúbbi þar sem þátttakendur áttu að lesa fjórar bækur, fá stimpil á bókamerkið sitt og setja nafnið sitt að því loknu í lukkupott. Útdráttarverðlaun voru í boði en þau hlutu þau Kári Vakaris Hauksson, Elín Bergþóra Gylfadóttir, Hulda Margrét Gísladóttir, Sigurbjörg Ólöf Þórunnardóttir og Sigrún Þórey Þórisdóttir. Við óskum þeim innilega til hamingju, en allir þessu duglegu lesendur fengu bók að gjöf.

Við vonum svo sannarlega að allir nemendur njóti lestrar um jólin, því lestur er auðvitað bestur!

Litlu jólin og jólaleyfi

Á morgun miðvikudaginn 20.desember er síðasti skóladagur fyrir jólaleyfi. Þann dag höldum við litlu jólin hátíðleg, mætum spariklædd, göngum syngjandi kringum jólatréð, borðum sparinesti og njótum síðustu samverustunda ársins.

Litlu jólin eru frá kl. 9:00 - 12:00 og fer strætó klukkustund seinna af stað en venjulega úr firðinum og Hnífsdal. Hann fer svo til baka frá skólanum kl. 12:05 og þar með hefst jólaleyfið.

Við óskum starfsfólki okkar, nemendum og fjölskyldum þeirra ásamt öllum velunnurum gleðilegrar jólahátíðar með kærri þökk fyrir árið sem er að kveðja. Skólastarf hefst á nýju ári fimmtudaginn 4. janúar samkvæmt stundaskrá.

Sýning leiklistarvals

Leiklistarval skólans hefur verið að setja upp leiksýninguna Jóladagatalið, sem er eftir leikara í Leikfélagi Hólmavíkur. Leikstjóri er Jóhanna Ása Einarsdóttir og stýrir Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir tæknimálum ásamt tækniráði nemenda. Frumsýning verður þriðjudaginn 12.desember kl. 17:00 og önnur sýning miðvikudaginn 13.desember kl. 17:00 í sal skólans. Sýningin er við hæfi allra fjölskyldumeðlima og er aðgangseyrir kr. 500. Allir eru velkomnir á meðan að húsrúm leyfir.

Jólakaffihús

Nemendur í heimilisfræðivali á unglingastigi eru önnum kafnir þessa dagana, en óneitanlega setur aðventan sterkan svip á verkefnavalið á þessum árstíma. Í vikunni var skólaeldhúsinu breytt í lítið jólakaffihús þar sem boðið var upp á nokkrar tegundir af smákökum, heitt súkkulaði með rjóma og kaffi. Starfsfólk skólans og fjölskyldur nemenda voru svo lánsöm að fá að þiggja þessar ljúffengu veitingar í notalegu andrúmslofti og umhverfi, en nemendur skiptust á að veita þeim skemmtilegan félagsskap og góða þjónustu.
Það eru þær stöllur Guðlaug Jónsdóttir og Salome Elín Ingólfsdóttir sem stýra nemendum styrkum höndum í gegnum allt þetta ferli af sinni alkunnu snilld.

Opinn fullveldisdagur og Íslandsmet í samsöng

Á morgun þann 1.desember fagna Íslendingar fullveldi sínu sem þeir hlutu árið 1918. Af því tilefni hefur skapast sú hefð hér í skólanum að  mæta í betri fötunum og hvetjum við alla sem vilja til að taka þátt í því.

Einnig er svokallaður opinn dagur hjá okkur, en þá bjóðum við foreldrum og öðrum velunnurum sérstaklega í heimsókn til að kíkja á nemendur í leik og starfi. Boðið verður upp á kaffi og piparkökur á kaffistofu starfsmanna og hlökkum við mikið til heimsóknanna. 

Þennan dag er einnig Dagur íslenskrar tónlistar með hátíðardagskrá í Hörpu í Reykjavík. Gerð verður atlaga að Íslandsmeti í samsöng, þar sem nemendur leik- og grunnskóla um allt land ætla að syngja saman eitt lag á sama tíma. Allir nemendur og starfsmenn G.Í. ætla að taka þátt í þeim viðburði og mæta út á Silfurtorg og taka lagið kl. 10:05. Gestir eru að sjálfsögðu velkomnir með okkur. Lagið sem sungið verður er ,,Það vantar spýtur" eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem Olga Guðrún Árnadóttir flutti á sínum tíma, en hún fagnaði 70 ára afmæli sínu í ár. Undirleikur verður í gegnum netið, en systkinin í hljómsveitinni Celebs frá Suðureyri sjá um hann af sinni alkunnu snilld.

Rithöfundur í heimsókn

1 af 3

Síðastliðinn föstudag kom Hjalti Halldórsson, rithöfundur í heimsókn í 4., 5. og 6. bekk og las upp úr bók sinni Lending, sem gerist að hluta til á Ísafirði. Hjalti er ansi fróður um Íslendingasögurnar og hefur skrifað fjölmargar skáldsögur fyrir börn og unglinga sem byggðar eru á þeim og er Lending ein þeirra. 

Við þökkum Hjalta kærlega fyrir komuna og gjöfina, en hann færði skólanum tvær bækur að gjöf í lok heimsóknar.

Guðlaug hlýtur hvatningarverðlaun fræðslunefndar

Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs
Finney Rakel Árnadóttir, formaður fræðslunefndar, Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar, Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari og Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs

Hvatningarverðlaun fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólastarf voru afhent þann 23. nóvember síðastliðinn.

Að þessu sinni féllu verðlaunin í skaut Guðlaugar Jónsdóttur, Diddu, fyrir heimilisfræðival við Grunnskólann á Ísafirði. Í umsögn nefndarinnar kemur meðal annars fram að Didda hafi einstakt lag á að vekja áhuga nemenda á íslensku hráefni og matargerð, enda er íslensk og vestfirsk matarmenning í hávegum höfð hjá henni. Þá hefur Didda farið óhefðbundnar leiðir í kennslu, meðal annars hefur hún haldið súpusamkeppnir á unglingastigi þar sem nemendur þróa sínar eigin súpur og lærðir kokkar eru fengnir til að sitja í dómnefnd.

Heimilisfræðival Diddu er dæmi um einstaklega vel heppnaða valgrein, sem náð hefur að vaxa og dafna með einstakri nálgun kennara á námsefni og jákvæðu viðhorfi til nemenda. Allt frá því að Guðlaug hóf störf við GÍ hafa valgreinar hennar í heimilisfræði verið mjög vinsælar, bæði á mið- og unglingastigi, og komast færri að en vilja. 

Didda er hlý í framkomu, metnaðarfull og kröfuhörð en með hlýrri nálgun og finnur ýmsar leiðir til að mæta nemendum á þeim stað sem þeir eru staddir.

Þetta er í þriðja sinn sem fræðslunefnd veitir hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf í Ísafjarðarbæ. Árið 2022 hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar verðlaun fyrir verkefnið Samstarf leik og grunnskóla – brú milli skólastiga og Grunnskólinn á Ísafirði fyrir verkefnið Útistærðfræði á unglingastigi. Árið 2021 féllu verðlaunin í skaut Tanga vegna öflugs útináms sem þar er boðið upp á.

Við erum ákaflega stolt af okkar konu og óskum henni innilega til hamingju með þessi verðskulduðu verðlaun.

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag og við það tilefni var Stóra upplestrarkeppnin hjá 7.bekk sett formlega í Hömrum og stýrði Kristján Arnar Ingason, skólastjóri, athöfninni. Lesararnir Jökull Örn Þorvarðarson og Hilmir Freyr Norðfjörð úr 8.bekk lásu sögubrot og ljóð, en þeir stóðu sig afar vel í keppninni í fyrra. Þá léku þær stöllur Saga Björgvinsdóttir og Kristín Eik Sveinbjörnsdóttir frumsamið lag á píanó og harmóníku. Í lokin sungu svo allir saman lagið Á íslensku má alltaf finna svar, lag Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Þórarins Eldjárns. Bergþór Pálsson lék undir á píanó.