VALMYND ×

Fréttir

Bókagjöf

Barbara Gunnlaugsson t.v. afhendir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur, skólastjóra, bókagjöfina.
Barbara Gunnlaugsson t.v. afhendir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur, skólastjóra, bókagjöfina.

Í morgun kom Barbara Gunnlaugsson, formaður félags Pólverja á Vestfjörðum, færandi hendi og gaf skólanum fjölmargar bækur á pólsku. Bækur þessar eru gjöf frá sendiráði Póllands á Íslandi og eru ýmist eftir pólska eða annarra þjóða höfunda og hafa þá verið þýddar yfir á pólsku.

Skólinn þakkar kærlega þessa rausnarlegu gjöf, sem eflaust á eftir að nýtast vel um ókomin ár.

Fundur vegna haustferðar

Þriðjudaginn 28. maí kl. 18:00 boða kennarar 9. bekkjar til fundar í dansstofu skólans til að ræða gönguferð næsta hausts og fleira sem varðar starfið næsta vetur. 
Hefð er fyrir því að 10. bekkur fari með báti  ýmist í Aðalvík, Hesteyri eða Grunnavík og gisti þar eina nótt í tjöldum. Hvert farið er, veltur á því hvar við fáum aðgang að húsnæði, því fararstjórar gista innanhúss og börnin þurfa að geta notað salerni og haft húsaskjól ef eitthvað kemur upp á. Svo að nú er stóra spurningin hvort einhverjir úr hópi aðstandenda geta boðið hópnum aðgang að húsi á þessum slóðum. 
Fararstjórar verða umsjónarkennarar og stuðningsfulltrúar og 2-3 úr hópi foreldra. Mjög áríðandi er að allir foreldrar verðandi 10. bekkinga mæti á þennan fund.

Dans, dans, dans

1. bekkingar ásamt foreldrum
1. bekkingar ásamt foreldrum
1 af 4

Nú eru síðustu hefðbundnu kennsludagarnir á þessu skólaári og við taka vordagar með ýmsu uppbroti.

Í síðasta danstíma vetrarins buðu nemendur foreldrum sínum á danssýningu og sýndu fimi sína á því sviði. Krakkarnir stóðu sig einstaklega vel og margir sýndu frumsamda dansa. Foreldrunum var líka boðið upp í dans og var víða hægt að sjá hvaðan krakkarnir hafa danshæfileika sína.

 

Heimsókn á slökkvistöðina

1 af 3

Í dag fór 5.HG í heimsókn á slökkvistöðina á Ísafirði. Starfsmenn stöðvarinnar tóku á móti hópnum og fræddi hann um allt mögulegt í sambandi við sjúkraflutninga og slökkvistarf. Tækjakostur bifreiðanna var mjög spennandi og fengu krakkarnir meira að segja að stíga upp í bílana og skoða þá að innan, enda eru bílarnir fullir af alls kyns tækjum og tólum sem koma sér vel þegar á þarf að halda.

Hópurinn þakkar starfsmönnum slökkvistöðvarinnar kærlega fyrir móttökurnar.

Kveðjukaffi 10. bekkjar

1 af 4

Í dag er síðasti hefðbundni skóladagurinn hjá 10. bekk. Af því tilefni kom starfsfólk skólans krökkunum skemmtilega á óvart og bauð þeim í kveðjukaffi og þakkaði þeim 10 ára farsæla samfylgd.

Næstu þrjá daga taka vorpróf við og á sunnudaginn verður haldið norður í Skagafjörð í skólaferðalag.

Skóladagatal 2013-2014

Nú er búið að samþykkja skóladagatal fyrir næsta skólaár og er hægt að nálgast það vinstra megin á síðunni eða hér.

Hvítasunnuhelgi framundan

Nú er hvítasunnuhelgin framundan og því frí á mánudaginn.

Námsmat annarinnar stendur yfir þessa dagana með tilheyrandi prófum og verkefnaskilum. Við bendum á vordagskrána sem hægt er að nálgast í heild sinni hér vinstra megin, neðst á síðunni. 

Samvera hjá 3. og 4. bekk

Nemendur spiluðu á flygilinn
Nemendur spiluðu á flygilinn
1 af 2

Í dag voru krakkarnir í 3. og  4. bekk með samverustund. Byrjað var í nýja anddyrinu, þar sem nokkrir krakkar spiluðu á flygilinn og því næst var haldið inn í skólastofu þar sem nemendur buðu upp á fjölmörg tónlistaratriði. Nemendur léku á fiðlu, gítar, þverflautu og harmónikku, auk þess sem sagðir voru brandarar, sýnt leikrit og spilagaldur.

Það er greinilegt að mikið er um virkilega hæfileikaríka krakka í þessum bekkjum og voru þeir mjög duglegir og ófeimnir að koma fram fyrir áhorfendur. 

9. bekkur kominn í ferðamannabransann

Þessa dagana er 9. bekkur að ljúka við verkefni sem unnið er sameiginlega í ensku og dönsku og gengur út á það að útbúa ferðabækling og annast leiðsögn fyrir ferðamenn um Ísafjörð. Krakkarnir stofna ferðaskrifstofu, ákveða hver markhópur skrifstofunnar er, og hvaða staðir verða heimsóttir. Síðan gera þau bækling á ensku og dönsku um þessa staði, setja inn myndir og upplýsingar og prenta hann út í lit. Að lokum fer hópurinn saman í göngu um bæinn og allir spreyta sig á að leika leiðsögumenn og kynna einhvern stað, bæði á ensku og dönsku. Þetta er skemmtilegt verkefni sem tekur tvær vikur og reynir á marga þætti. Vonandi viðrar vel á "túristana og leiðsögumennina" á föstudaginn þegar við förum í skoðunarferðina.

Markhópar þessara ferðaskrifstofa eru mjög margvíslegir, ferðirnar eru ætlaðar m.a. unglingum, þýskum ellilífeyrisþegum, fólki sem er í megrun, fuglaáhugafólki o.s.frv. svo að væntanlega verða viðkomustaðirnir líka fjölbreyttir og áhugaverðir.

Ástarsaga úr fjöllunum

Úr sýningunni Ástarsaga úr fjöllunum. (Mynd: moguleikhusid.is).
Úr sýningunni Ástarsaga úr fjöllunum. (Mynd: moguleikhusid.is).

Í morgun bauð skólinn nemendum 1. - 4. bekkjar upp á leiksýninguna Ástarsaga úr fjöllunum, sem sýnd er af Möguleikhúsinu. Leikritið byggir á hinni sívinsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur og fjallar um tröllskessuna Flumbru og tröllastrákana hennar átta.

Leikgerð og söngtextar eru eftir Pétur Eggerz, sem einnig annast leikstjórn, en höfundur tónlistar er Guðni Franzson. Það eru leik- og söngkonan Margrét Pétursdóttir og leikarinn og tónlistarmaðurinn Valgeir Skagfjörð sem leika sýninguna, en leikmynd og búningar eru eftir Messíönu Tómasdóttur.