VALMYND ×

Litla upplestrarkeppnin í 4.bekk

1 af 4

Á hverju vori taka nemendur 4. bekkjar þátt í Litlu upplestrarkeppninni sem er undanfari Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk.  Keppnin byggir á sömu hugmyndafræði og Stóra upplestrarkeppnin þar sem ávallt er haft að leiðarljósi að keppa að betri árangri í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu. Lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni og  að allir nemendur taki þátt sem liðsheild.

Í morgun fór keppnin fram í Hömrum að viðstöddum foreldrum og gestum 4.bekkjar, ásamt nemendum 3. bekkjar. Flutt voru ljóð, sögubrot, vísur, málfarsmolar, þula, skrýtlur og andheiti, - allt eftir íslenska höfunda. Sigurvegari Stóru upplestrarkeppninnar á norðanverðum Vestfjörðum, Símon Richard Eraclides,  flutti einnig ljóð og textabrot af sinni einlægni. Þá léku tvær stúlkur úr árgangnum, þær Fjóla Gunnarsdóttir og Isabel Snæbrá Rodriguez sitt hvort lagið á píanó.

Flytjendur allir ásamt kennurum stóðu sig með mikilli prýði, þannig að unun var á að hlýða. Að flutningi loknum var boðið upp á veitingar og að sjálfsögðu fengu allir nemendur viðurkenningarskjal. Til hamingju 4.bekkur!

Deila