VALMYND ×

Fréttir

Nemendaþing G.Í. kynnt í Danmörku

Í dag eru Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir, kennari, á ráðstefnunni ,,Norden viser vej - udforinger og styrker i de nordiske uddannelser" eða Áskoranir og styrkur í norrænni menntun, sem fram fer í Kaupmannahöfn í Danmörku. Þar munu þær stöllur kynna nemendaþing skólans, sem haldið var s.l. haust. Aðdragandinn er að nokkrum íslenskum skólum var boðið að senda inn kynningu á áhugaverðum verkefnum og var okkar verkefni það eina sem valið var frá Íslandi. Á ráðstefnunni eru erindi frá skólum á öllum Norðurlöndunum. 


Meira

Góð stemning á þorrablóti 10. bekkjar

Íslenskir þjóðbúningar voru áberandi á þorrablóti 10. bekkjar
Íslenskir þjóðbúningar voru áberandi á þorrablóti 10. bekkjar
1 af 2

Í kvöld var þorrablót 10. bekkjar haldið í sal skólans. Það eru foreldrar og forráðamenn nemenda í 10. bekk sem hafa veg og vanda að blótinu og er þetta einn elsti og skemmtilegasti menningarviðburðurinn í skólastarfinu.

Kristján Andri Guðjónsson sá um veislustjórn af mikilli röggsemi og stýrði einnig fjöldasöng ásamt Ingunni Ósk Sturludóttur, við undirleik Beötu Joó.

Eftir að allir höfðu snætt sinn þorramat úr trogum buðu foreldrar og kennarar upp á skemmtiatriði, sem var mjög vel tekið. Að borðhaldi loknu var svo stiginn dans við harmóníkuleik og var virkilega gaman að sjá unglingana dansa gömlu dansana við foreldra, afa og ömmur. Íslenski þjóðbúningurinn var áberandi í kvöld og skörtuðu allar stúlkur 10. bekkjar slíkum búningum og setti það svo sannarlega skemmtilegan hátíðarsvip á samkomuna.

Til marks um það hversu mikilvægur þáttur þorrablótið er, þá fékk það tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2011. Þar kom fram að verkefnið miði að því að viðhalda sterkri hefð í skólanum. Tilgangurinn sé margþættur og megi í því sambandi nefna liðsheild innan foreldrahópsins, sem skipti miklu máli í samstarfi foreldra og unglinga.

Fjölmargar myndir frá þorrablótinu má finna hér inni á heimasíðu 10. bekkjar.

Skautað á Austurvelli

7.HS sýnir listir sínar
7.HS sýnir listir sínar
1 af 2

Nú um hádegisbilið brá 7.HS sér í skautana og sýndi listir sínar á svellinu á Austurvelli. Þrátt fyrir óslétt svell og nokkrar vindhviður, þá sýndu margir hverjir snilldartakta.

Til eru nokkur pör af skautum í skólanum og eru fleiri vel þegin ef einhverjir eiga á lausu.

Þorri blótaður

Föstudaginn 24. janúar hefst þorri sem er gamalt mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist bóndadagur og einmitt þann dag er miður vetur. 

Á bóndadaginn verður hið árlega þorrablót 10. bekkinga G.Í. Nemendur og foreldrar hafa stundað æfingar af kappi fyrir blótið, þar sem dansfæturnir hafa verið liðkaðir. Einnig þarf að æfa fjöldasöng og skemmtiatriði, en þorrablótið er einn helsti og elsti menningarviðburðurinn í skólastarfinu. Þar koma nemendur 10. bekkjar saman ásamt fjölskyldum sínum og kennurum og fagna komu þorra að gömlum sið. Allir koma með sinn mat í trogi og einnig hefur sú hefð styrkst að stúlkur mæti í íslenskum þjóðbúningum.

Húsið opnar kl. 19:30 og hefst borðhald um kl. 20:00.

Stöðvum einelti!

Nemendur láta sig svo sannarlega einelti varða. Nokkrar stelpur í 9. bekk, þær Birta Dögg Guðnadóttir, Ingigerður Anna Bergvinsdóttir, Kolfinna Rós Veigarsdóttir Olsen og Natalía Kaja Fjölnisdóttir, tóku sig því til og gerðu myndband um einelti og hræðilegar afleiðingar þess. 

Myndbandið hefur vakið mikla athygli strax fyrsta sólarhringinn og m.a. verið birt á síðunni bleikt.is. 

Gott framtak hjá stelpunum, sem vita sem er að einelti á ekki að líðast og öll getum við lagt okkar af mörkum.

Söngkeppni Samfés

Í kvöld fer fram söngkeppni félagsmiðstöðva á Vestfjörðum. Keppnin fer fram á Hólmavík í þetta skiptið og koma keppendur frá flestum félagsmiðstöðvum á norðanverðum Vestfjörðum. Hópur nemenda frá G.Í. leggur af stað nú um hádegið, bæði keppendur og stuðningsmenn, ásamt starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins.

Við óskum ferðalöngunum góðrar ferðar og góðs gengis, en keyrt verður heim aftur í nótt.

Mikolaj í 3. sæti í Þýskalandi

Mikolaj Ólafur Frach, pínaóleikari
Mikolaj Ólafur Frach, pínaóleikari

Nú á dögunum tók Mikolaj Ólafur Frach, nemandi í 8. bekk, þátt í alþjóðlegri píanókeppni í Austur-Þýskalandi. Þátttakendur voru 120 úrvalsnemendur frá mörgum Evrópulöndum en Mikolaj var eini Íslendingurinn og er þetta fyrsta keppnin hans á erlendri grundu, að sögn Januszar Frach, föður hans.

Það er skemmst frá því að segja að Mikolaj hafnaði í 3. sæti í sínum aldursflokki, sem er aldeilis frábær árangur hjá þessum unga tónlistarmanni og óskum við honum innilega til hamingju.

Fyrirlestur um samskipti

Wilhelm Norðfjörð skólasálfræðingur mun verða með fyrirlestur um samskipti í sal skólans miðvikudaginn 15. janúar frá kl. 20-21. Fyrirlesturinn er öllum opinn og kostar ekkert.

Comeniusarverkefni 10. bekkjar

10. bekkur vinnur að Comeniusarverkefni í vetur eins og áður hefur komið fram. Því fylgja ýmis verkefni, stór og smá. Eitt af þeim var að nemendur áttu að lýsa jólaundirbúningi í skólanum okkar. Þá var þetta myndband tekið saman en í því má sjá að það er margt fallegt og skemmtilegt sem gert er í skólanum fyrir jólin og ekki hægt að segja annað en að 10. bekkur taki sig býsna vel út. 

Vísindamenn í 1. bekk

Nemendur í 1. bekk hafa fengist við ýmis rannsóknarverkefni í náttúrufræðinni í vetur. Að sjálfsögðu vinna þeir eins og alvöru vísindamenn, setja fram tilgátu, gera tilraun og skrá niðurstöður í tilraunabók.  Viðfangsefni gærdagsins var að kanna bráðnun á snjó.  Strax í gærmorgun voru tvær könnur fylltar af snjó. Önnur kannan var vafin inn í lopahúfu eða lopasjal en hin var látin standa óvarin. Krakkarnir settu fram tilgátu um hvað myndi gerast. Allir vissu að snjórinn bráðnar inni í hitanum en spurningin var í hvorri könnunni bráðnaði fyrr.  Nokkrar umræður urðu um þetta og reyndi á krakkana að geta útskýrt og rökstutt svar sitt.  Flestir héldu því fram að þar sem ullin heldur okkur heitum myndi snjórinn bráðna hraðar inni í lopanum, hann væri jú heitur.   Þeir skráðu tilgátuna í tilraunabókina og síðan hófst biðin eftir niðurstöðunum.  Eftir hádegi var hulunni svipt af könnunni og urðu margir hissa. Snjórinn í ullinni hafði bráðnað mun minna en snjórinn í hinni könnunni. Síðan var hlutunum velt fyrir sér og spurningar eins og af hverju og hvernig getur þetta verið.  

Niðurstaða tilraunarinnar varð sú að ullin einangarði svo vel að hún „héldi“ kuldanum inni í könnunni en hitanum frá. 

Það er sem sagt hægt að nota ull eins og hitabrúsa þ.e. hægt að setja heitt eða kalt á flösku og setja síðan flöskuna  í ull til að halda henni heitri eða kaldri.  Niðurstöðurnar voru síðan skráðar í tilraunabókina.