VALMYND ×

Fréttir

Aðalfundur Foreldrafélags G.Í.

Aðalfundur Foreldrafélags Grunnskólans á Ísafirði verður haldinn í kvöld, í sal skólans kl. 20:30. Á dagskránni eru venjuleg aðalfundarstörf, en auk þeirra verður Svavar Þór Guðmundsson með áhugavert erindi um netsamskiptamiðla barna og unglinga.

Boðið verður upp á kaffi og konfekt og eru allir foreldrar hvattir til að mæta.

Stemning á Silfurtorgi

1 af 4

Það var góð stemning á Silfurtorgi í morgun þegar allir nemendur og starfsfólk skólans marseruðu um bæinn og enduðu á torginu. Tilefnið er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn sem haldinn er í dag. Árni Heiðar Ívarsson, íþróttakennari, stjórnaði göngunni af röggsemi og enduðu allir á því að dansa og syngja á Silfurtorgi í blíðskaparveðri.

Nálgast má fleiri myndir inni á myndasafni skólans hér á síðunni.

Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn

Í ár tekur Ísland þátt í sjöunda skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október en vegna birtu og veðuraðstæðna fer verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október.

Af því tilefni ætla nemendur og starfsfólk G.Í. í skemmtigöngu um bæinn í dag líkt og undanfarin ár. Lagt verður af stað frá skólanum kl. 9:00 og endað á Silfurtorgi, þar sem stefnt er að því að skapa karnival stemningu.

Útivistartími barna og unglinga

Frá og með 1. september síðastliðinn breyttust útivistartímar barna og unglinga.

 

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20:00 nema í fylgd með fullorðnum.

Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22:00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. 

Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. Útivistarreglur eru samkvæmt barnaverndarlögum og er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Við hvetjum foreldra til að vera samtaka og hjálpast þannig að við að virða þessar reglur.

 


Nemendaþingi lokið

1 af 4

Í morgun þinguðu nemendur 6. - 10. bekkjar um skólastarfið í sinni víðustu mynd. Skipt var í hópa þvert á árganga og var markmið þingsins að vinna að því að efla vitund nemenda um eigin ábyrgð í skólastarfinu og fá fram sjónarhorn þeirra á hlutverk aðila skólastarfsins. 

Nú tekur við úrvinnsla skólastjórnenda og verða niðurstöður kynntar innan tíðar.

Hér eru fleiri myndir frá þinginu.

Innileikfimi

Í þessari viku hefst innileikfimin og er því nauðsynlegt að hafa viðeigandi íþróttafatnað á þeim dögum. 

Nemendaþing

Þriðjudaginn 1. október er blásið til nemendaþings hér í skólanum frá kl. 9:40 - 12:35. Tilgangurinn með þinginu er að efla vitund nemenda um eigin ábyrgð í skólastarfinu og fá fram sjónarhorn þeirra á hlutverk aðila skólastarfsins og hvað hver og einn getur gert til að hafa jákvæð áhrif á daglegt starf í skólanum. Þátttakendur þingsins eru allir nemendur í 6. - 10. bekk og verður aldursblandað í hópa. Borðstjórar verða valdir úr hópi eldri nemenda og verða nokkrir kennarar til aðstoðar.

Niðurstöðum þingsins verður skilað til skólastjórnenda sem sjá svo um úrvinnslu og að gera niðurstöður sýnilegar.

Evrópski tungumáladagurinn

Í dag er evrópski tungumáladagurinn, sem er hugsaður sem vettvangur til að sýna fólki í Evrópu hversu mikilvæg tungumál eru. Yfir  6000 tungumál eru töluð í heiminum og á bak við hvert þeirra liggur rík og fjölbreytt menning. Með því að læra tungumál annarra þjóða eykst gagnkvæmur skilningur og við sigrumst á menningarmun sem skilur okkur að. Margir tungumálakennarar og jafnvel heilu skólarnir brjóta upp hefðbundið skólastarf og halda sérstaklega upp á evrópska tungumáladaginn með margvíslegum hætti. G.Í. er þar engin undantekning og er dagurinn nýttur sem best til að gera tungumálum hátt undir höfði, eftir því sem kostur er.

Comeniusarverkefni í 10. bekk

Í vetur vinnur 10. bekkur G.Í. að Comeniusarverkefni í samstarfi við skóla í Rúmeníu, Portúgal, Kýpur og Póllandi. Yfirskrift verkefnisins er: All different, all the same, Europe‘s children!

Verkefninu verður hrundið af stað á Evrópska tungumáladeginum 26. sept. og unnið jafnt og þétt allan veturinn. Áhersla verður á ýmiss konar samskipti, gagnkvæmar heimsóknir og samskipti á netinu og fara öll samskipti fram á ensku.

Nánari upplýsingar varðandi þetta verkefni er að finna á heimasíðu 10. bekkjar.

Samræmd könnunarpróf hefjast í dag

Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91/2008, skal leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4., 7. og 10. bekk að hausti ár hvert. Meginhlutverk prófanna er að veita nemendum, foreldrum þeirra og skólum, upplýsingar um námsstöðu við upphaf skólaársins.

 
Dagsetningar samræmdra könnunarprófa þetta haustið eru:

Mánudagur 23. september Íslenska 10. bekkur

Þriðjudagur 24. september Enska 10. bekkur

Miðvikudagur 25. september Stærðfræði 10. bekkur

Fimmtudagur 26. september Íslenska 4. og 7. bekkur

Föstudagur 27. september Stærðfræði 4. og 7. bekkur

 

Allar nánari upplýsingar varðandi prófin má nálgast á heimasíðu Námsmatsstofnunar.